Listasafnsfélag Listasafns Íslands

Listasafnsfélagið, hollvinafélag Listasafns Íslands, var endurvakið á fundi sem haldinn var í Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegi 7, fimmtudaginn 9. janúar 2025.

Megin­markmið

Megin­markmið félagsins er að styðja við starfsemi Listasafns Íslands og bæta safnkost þess. Listasafnið hefur takmarkað fé til innkaupa en til að safnið geti orðið safn á heimsmælikvarða er mikilvægt að eignast fleiri lykilverk eftir íslenska og alþjóðlega listamenn.

Félagið mun standa fyrir tveimur viðburðum á ári sem félagsmönnum verður sérstaklega boðið til ásamt því að safna fjármunum til að styrkja Listasafn Íslands.

Félagið starfar innan ramma laga 110/2021 um almannaheillafélög.

Um árabil hafa fjölmargir listamenn og aðrir velunnarar stutt við safnið með listaverkagjöfum og fjárframlögum. Stærsta einstaka fjárframlag til safnsins kom frá Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssyni árið 1980 en núvirt nemur það hátt í milljarði. Þá er stutt síðan erfingar hjónanna Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, sem kennd eru við Síld og fisk, færðu safninu um 1400 verk.

Forveri Listasafnsfélagsins sem hét sama nafni starfaði um tíma á sjötta áratugnum og gaf safninu verk eftir nokkra kunna erlenda samtímamenn en formaður stjórnar var Gunnlaugur Þórðarson lögfræðingur og listunnandi.

Ráðherra menningarmála, Logi Einarsson, ávarpaði stofnfundinn og Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, held einnig stutt erindi.

Stjórn Félagsins

Formaður stjórnar er Katrín Jakobsdóttir, en meðstjórnendur eru Reimar Pétursson og Salvör Nordal. Varamaður er Kjartan Ólafsson.

Á myndinni eru stjórn félagsins ásamt Sif Einarsdóttur, skoðunarmanni félagsins, og Ingibjörgu Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands.

Hagnýtar upplýsingar:

Skráning: senda tölvupóst með kennitölu á listasafnsfelagid@listasafn.is

Kennitala: 460325-1530

Reikningsnúmer: 0133-26-019821

Samþykktir Listasafnsfélagsins fta.

1.gr.
Félagið heitir Listasafnsfélagið fta. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að styðja við starfsemi Listasafns Íslands. Félagið er óhagnaðardrifið og rekur ekki atvinnustarfsemi.

3. gr.
Tilgangur félagsins er að afla fjár með félagsgjöldum og frjálsum framlögum, hvort heldur í formi reiðufjár eða listaverka, sem skulu að teknu tilliti til rekstrarþarfa félagsins sjálfs renna til Listasafns Íslands. Í tengslum við slíkar gjafir mun félagið gera skilyrði eftir því sem eðlilegt eða þurfa þykir á hverjum tíma um meðferð þeirra framlaga sem renna munu til Listasafns Íslands. Félagið hyggst jafnframt óska skráningar á almannaheillaskrá, sbr. 9. tölulið 4. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 7. tölulið A-liðar 30. gr. og 2. tölulið 31. gr. sömu laga.

4. gr.
Félagsmenn eru þeir sem gengið hafa í félagið og greitt félagsgjald samkvæmt 8. gr. samþykkta þessara. Félagsmenn geta verið einstaklingar, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir. Stjórn heldur skrá um félagsmenn á hverjum tíma. Félagsmönnum er heimilt að veita umboð til annarra að mæta til funda félagsins og neyta þar réttinda fyrir sína hönd. Félagsmenn skulu gefa upp tölvupóstföng og er félaginu heimilt að beina tilkynningum til félagsmanna með skeytum á þau póstföng. Telst það á ábyrgð félagsmanns hafi hann vanrækt að tilkynna félaginu póstfang eða hafi hann vanrækt að tilkynna félaginu breytingar á því.

5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi.

6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. maí ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Sending tölvuskeyta með fundarboði til félagsmanna á tölvupóstföng samkvæmt félagaskrá telst ávallt rétt boðun. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Önnur mál

7.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð þremur félagsmönnum (formanni og tveimur meðstjórnendum) kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Einnig er heimilt að kjósa allt að þrjá varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum formanns stjórnar. Stjórn félagsins skipar félaginu gjaldkera og er stjórninni heimilt að gera samning um útvistun á daglegum rekstri félagsins og færslu bóka þess.

8.gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi fyrir næsta ár. Félagsgjöld skulu innheimt árlega í upphafi hvers árs og telst eindagi þeirra vera 31. janúar ár hvers. Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

9. gr.
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til þarfa Listasafns Íslands. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins. Verði Listasafn Íslands lagt niður skal félagið lagt niður og skal stjórn þá ráðstafa sjóðum þess til þarfa annarra menningarstofnana sem þá gegna hlutverki sem verður þá talið svipa til þess sem Listasafn Íslands gegnir í dag.

10.gr.
Stjórn skal semja ársreikning félagsins og sjá til þess að bókhald sé tryggilega fært. Skal þess gætt að bókhald og ársreikningur beri með sér fjárhæð gjafa og framlaga ásamt því hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað til almannaheilla.
Á aðalfundi skal kjósa einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn. Skulu þeir rannsaka reikninga félagsins fyrir hver starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðendur eða skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna, félagsmanna eða starfsmanna félagsins.

11. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Listasafns Íslands eða, hafi það verið lagt niður, til annarra þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.

12. gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessa segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla svo og öðrum lagaákvæðum og reglum sem við geta átt.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17